Allir Íslendingar eru blátt áfram framkvæmdaglaðir listamenn, náttúrubörn og víkingar og sannlega einstakir í sinni röð

Grein þessi birtist í annarri mynd í fyrra í Tímariti Máls og menningar. Þessi útgáfa er ekki prófarkarlesin og gætu því einhverjar villur dúkkað upp.

Fjöldinn allur af þegnum sambandslýðveldisins Þýskalands er heillaður af landi voru, þótt iðulega séu slíkar fullyrðingar afstæðar. Allavega er óhætt að slá því á föstu að oft sé vart þverfótað fyrir þýskumælandi túrhestum á Íslandi og þá einkum yfir sumarmánuðina. Flestir þeirra heilluðu láta hrífast af mikilfenglegri náttúrunni en einhverjir eiga það til að falla í stafi fyrir vissum eiginleikum íslenskrar þjóðarsálar sem og meintri knýjandi sköpunarþörf landans.

Og margir hverjir trúa því eins og nýju neti að í okkur Íslendingum blundi listamaður sem, ef hann hefir það ekki nú þegar, bíður, uppbelgdur af frjósemi, eftir að springa út, og fá útrás fyrir þessa þörf. Einnig leggja sumir hverjir trúnað á að vér Íslendingar séum öðrum þjóðum framkvæmdaglaðari og hugmyndaríkari, að manneskjur eins og hinn nafntogaði Kiddi vídeófluga á Egilsstöðum séu spegilmynd venjulegs Íslendings, að íslensk börn lesi öll sem eitt áfergjulega íslenskar miðaldabókmenntir og bregði sér í hlutverk persóna Íslendinga sagnanna í leik sínum -ég er Gunnar og þú ert Njáll-1 og að landinn láti sig menningararfleifð sína almennt miklu varða … og svo eru það auðvitað öll hin fjölmörgu hesthneigðu þýðversku fljóð sem ríða út um allar trissur og það að álfatrú sé víðbreitt fyrirbæri á eyjunni.

Ólíklegt er að það hafi farið framhjá mörlandanum að Frón var gestaland Bókasýningarinnar í Frankfurt við Main í Þýskalandi síðastliðið haust. Framgangan þar verðskuldar sannlega húrraköll út í eitt enda velgengni á velgengni ofan. Var landið allt að því hafið upp til skýjanna og var innfæddum tíðrætt um ofangreind atriði. Var klifað svo ákaft á öllum þeim jákvæðu klisjum sem landið er oftlega spyrt saman við að sú tilfinning skaut upp kollinum að verið væri að hæðast að þessu öllu saman. Sú var þó ekki raunin.

Hvað sem því líður komu út þó nokkrar bækur fyrir téða bókasýningu eftir þýskumælandi höfunda þar sem Ísland og ekki síst Íslendingar eru í aðalhlutverki. Er skemmst frá því að segja að metnaðarfullt upplýsinga- og áróðursmálaráðuneyti gæti í flestum tilfellum ekki dregið upp jákvæðari mynd af landi og þjóð. Og þessi mynd grasserar í hugum margra þeirra stoltu Þjóðverja sem smitaðir eru af Íslandsblæti, sé smit það á vægu eða alvarlegu stigi. Að vísu verður Þjóðverjinn að fara einkar varlega með orð líkt og stoltur í samhengi við heimalandið en getur að sama skapi fengið útrás fyrir orðið í gegnum téða eyju norður í Ballarhafi.

Og án vafa sjá þeir landið sem einhvers konar fyrirmyndarland, útópíu. Og líkt og raunin er með slíkar -píur eru þær oft byggðar á draumsýn sem vissulega hefir undirstöður í veruleikanum þótt ískaldur veruleikinn sé oftar enn ekki öllu jarðbundnari, líkt og opin gröf.

En já, kíkjum aðeins á þessar þýðversku bækur. Þær bækur sem hér verður tæpt á eru fjórar að tölu, þótt sannlega hafi fleiri komið út síðustu misseri. Um er að ræða bækurnar Alles ganz Isi: Isländische Lebenskunst für Anfänger und Fortgeschrittene (Allt í stakasta lagi/Allt alveg ísí: Íslenskur þankagangur/lífsstíll fyrir byrjendur og lengra komna). Höfundur: Blaðakonan Frau Alva Gehrmann (1973). Wo Elfen noch helfen: Warum man Island einfach lieben muss (Þar sem álfar veita ennþá hjálparhönd : Af hverju maður getur ekki annað en elskað Ísland). Höfundur: Blaðakonan Frau Andrea Walter (1976). Ein Jahr in Island: Reise in den Alltag (Eitt ár á Íslandi: ferðast um hvunndaginn). Höfundur: Ljósmyndarinn og blaðakonan Frau Tina Bauer (1976). Og svo Mein sagenhaftes Island (Sögueyjan mín). Höfundur: Blaðamaðurinn Herr Henryk M. Broder (1946). Allir þessir einstaklingar hafa verið með annan fótinn á klakanum í gegnum tíðina og raðað saman lifandis býsn af bókstöfum sem mynda orð og setningar er taka á Íslandi en þó einkum og sérílagi því fólki sem landið byggir.

Umræddir höfundar hafa verið virkir sjálfstætt starfandi blaðamenn um þó nokkuð skeið og stungið niður penna fyrir fjöldann allan af þýskum fjölmiðlum. Herr Broder er þekktastur þeirra. Telst hann meira að segja nokkuð umdeildur í heimalandinu og hefir oft og tíðum skrifað á óvæginn hátt um landa sína, gyðinga (hann er sjálfur gyðingur og má það þess vegna) og Araba.

Þessum Íslandsbókum svipar óneitanlega til hvorrar annarrar og einatt er brugðið upp áþekkum myndum af landanum auk þess sem sömu íslensku nöfnin eiga það til að skreyta síður bókanna. Einhver er munurinn þó -skárra væri það nú- og skal nú lauslega greina frá honum sem og að reifa innihald verkanna.

Alles ganz Isi: Frau Gehrmann skiptir bók sinni upp í níu kafla: „Sköpun“, „Fjölskylda“, „Náttúra “, „Vinna“, „Krísur“, „Fegurð“, „Hefð“, „Út á lífið“ og „Afslöppun“. Í inngangi bókarinnar lýsir hún sér sem skipulagðri manneskju sem er gjörn á að ramma tilveruna í aðgerðalista. Bókahöfundur er heillaður af hinum bullandi sköpunarkrafti og vinnugleði allra landmanna, afslöppuðu viðhorfi allra eyjaskeggja til manna og málefna sem endurspeglast í „þetta reddast“ hugsanaganginum. Síðan vilja Íslendingar stöðugt vera að skapa eitthvað nýtt2(Gehrmann 2011: 29), og eru afar blátt áfram og „nýta sérhverja stund. Og það hundrað prósent.“ (Gehrmann 2011: 41). Svo er vart að hjarðdýrahvöt fyrirfinnist í Íslendinginum, enda eru þeir í grunninn einstaklingssinnaðir víkingar, einkar uppteknir af arfleifð sinni, drekka mikið brennivín og eru eftir því skemmtanafúsir. Svo er eitthvað minnst á álfa.

Mein sagenhaftes Island: Herr Broder hefir síðustu 15 ár verið tíður gestur á Íslandi og samanstendur þetta verk af greinum sem hann hefir fest á blað um land og þjóð á „tímabilinu 2001 til 2011 [og] fjalla um hvunndaginn […] sem er eins spennandi og ævintýraferðalag annarsstaðar“3 (Broder. 2011). Einkar vandræðalegt við þessa bók er hve margar villur hana prýða.

Ein Jahr in Island: Frau Bauer býr, líkt og titill bókarinnar gefur til kynna, eitt ár á Íslandi og er bókinni skipt upp eftir mánuðunum. Hún vinnur á Kjarvalstöðum, fær kennitölu, ferðast um landið, kynnist innfæddum og venjum þeirra, kynnist þýðverskum karlmanni, keppist við að læra tunguna og íslenska sjálfa sig sem mest hún má. Allir Íslendingar eru, í augum Frau Bauer, meira og minna „verrückt“ eða brjálaðir, afslappaðir eða kærulausir, tengjast náttúrunni sterkum böndum, eru skapandi og framkvæmdaglaðir og „næstum því sérhver Íslendingur spilar á að minnsta kosti eitt hljóðfæri og flestir þeirra geta sungið afbragðsvel. Sannkallað undur!4“ (Bauer 2011: 57). Auk þess er tæpt á frjálslyndu fjölskyldumynstri eyjaskeggja. Já, og álfar og víkingar skjóta ósjaldan upp kollinum. Sjálfri sér lýsir hún sem áætlunarglaðri manneskju og telur það jafnframt eitt af megineinkennum landa sinna.

Wo Elfen noch helfen: Árið 2003 fær höfundur styrk til að starfa hjá íslensku dagblaði og heldur til eyjunnar í norðri sem hún veit ekki mikið um. Fljótlega áttar hún sig þó á að þetta eyríki er ekkert minna en meiriháttar, hvort heldur sem er náttúran eða íbúarnir og er hvort tveggja frjótt og gefandi og lætur ekkert buga sig. Hefir Ísland mótandi áhrif á hennar þýsku sál. Bókinni er skipt í tvo hluta; fyrir og eftir fjármálakreppuna og kemst hún að því að í íslenska sálargrunninum hafi ekki orðið svo mikil umskipti eftir fallið. Hlutunum tveimur er skipt upp í kafla þar sem drepið er á ýmsum þemum eins og íslensku hnossgæti og álfum sem og að fjallað er um venjulega Íslendinga eins og Hallbjörn Hjartarson, Jón Gnarr, Árna Johnsen og Bobby Fischer. Ísland er nefnilega land þar sem Björk Guðmundsdóttir „er fullkomlega venjuleg manneskja“.5 (Walter 2011: 67)

Já, dæmigerður mörlandi er sannlega fjölmörgum jákvæðum eiginleikum gæddur og við þetta má bæta að Frónbúinn er, samkvæmt bókahöfundum, einstaklega sveigjanlegur, „[elskar] efstastig lýsingarorða“6 (Broder 2011: 76), er reiðubúinn til að hrinda sérhverri hugmynd í framkvæmd, hefur ótal mörg járn í eldinum (bæði hvað atvinnu og áhugamál varðar), lætur sig fjölskyldu sína miklu varða og er stoltur af uppruna sínum. Og þó draga megi upp almenna mynd af lundarfari landans þá er hann engu að síður einstakur í sinni röð; enginn er „nóbodý“ á klakanum.

En hvernig kemur þessi Íslandsmynd til?

Ævintýri og framandleiki hafa í gegnum tíðina oftlega verið sett í samhengi við eyjur og finnast þess fjölmörg dæmi í bókmenntunum. Má í því sambandi benda á Ódyseifskviðu Hómers og Útópíu Thomas More frá 1516. Og því meiri sem fjarlægðin á milli miðjunnar, sem er þá viðmiðið, er því líklegra er að af staðnum fari framandi orðspor þar sem annað hvort allt er til fyrirmyndar (útópía) eða þá allt í „fokki“ (dystópía)7.

Sagnfræðingurinn Sumarliði Ísleifsson hefir í gegnum tíðina fengist umtalsvert við ímynd Íslands út á við og bendir á, í grein sinni „Fyrirmyndarsamfélagið Ísland“, hvernig „[u]ppruni og menningarlegur bakgrunnur, þjóðfélagsstaða, svo og persónuleg, stjórnmálaleg og trúarleg viðhorf hafa áhrif á hvernig fjallað er um tiltekið viðfangsefni“ (Sumarliði Ísleifsson 2002: 126). Það er því kannski ekki að undra að þýðverskir, sem margir hverjir vilja sínkt og heilagt meina að þeir séu skipulags- og öryggissjúkir, þrætugjarnir og gagnrýnir, geri svo gott sem ekkert að óyfirlögðu ráði, séu allrahanda hjarðdýr og komi þar að auki frá landi þar sem náttúru og landslagi svipar til nágrannalandanna -„also“ frekar „unspektakulär“ að eigin mati- skuli falla í stafi yfir þessum meintu undraverðu eiginleikum landans sem ríma svo vel við fjölskrúðuga náttúruna. Og svo liggur viss bannhelgi yfir því að vera stoltur af þjóðerni sínu, sýna því áhuga og hlúa að. Þar af leiðandi mætti leiða líkur að því að viss útrás fáist í gegnum það að útmála þetta upplag Frónbúans. Með öðrum orðum gæti þetta haft eitthvað með það að gera hvernig höfundar myndu vilja sjá hlutunum hagað í heimalandinu og máske er íslenski hællinn að einhverju leyti sniðinn af þannig að fóturinn megi passa í skóinn?

EN ekki er þó hægt að segja að þessar meiningar séu alfarið úr lausu lofti gripnar. Margir þeir íslensku viðmælendur sem teknir eru tali í verkunum gera enda í því að básúna framangreind atriði sem algild sannindi, berja sér oflátungslega á brjóst, setja upp víkingahjálminn, teyga brennivínið, skófla í sig hákarlinum og fullyrða að Íslendingurinn lesi Íslendinga sögurnar, sé almennt einkar meðvitaður um sögu sína og uppruna og berji í það minnsta saman kvæði fyrir skúffuna. Svo útilokar hann auðvitað ekki tilvist álfana.

Þetta er inntak bókana í hnotskurn, þótt vissulega sé tæpt á fleiru en karakterauðkennum Íslendingsins og sumt af því er bara hreint ekki svo galið. En Íslendingsinnstillingin er sannlega rauði þráður verkanna og er gert í því að draga fram áðurnefnd atriði. Kannski svo mikið að túlka mætti þessa viðleitni sem einhvers konar framandleikaþörf. Framandleikaþörf sem er ágætlega kristölluð í einum kaflanum hjá Frau Walter, „Okkur skortir álfana“8, þar sem hún ræðir við Terry Gunnell prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands um álfatrúna og bendir hann henni á að ef til vill sé áhugaverðra að pæla í hvað fær þýska blaðamenn til að garfa í viðlíka málefnum og bætir við að slíkt sé eitthvað sem aðrar þjóðir hafi fyrir löngu gloprað niður í gegnum rationalisma, kirkjuna og vísindin (Walter 2011: 168). Og það er hugsanlega heila málið.

Og hver vill svo sem lesa um Herr eða Frau Hversemer sem ekki hefir svert blað með ljóði né auðgað andann með Kiljan og kó, á ekkert sameiginlegt með þúsundþjalasmiðnum Kidda vídeóflugu, er ekki andlega skyldur Björk Guðmundsdóttur og nennir ekki fyrir sitt litla líf að pæla í íslenskri menningararfleifð. Það er að segja eitthvað sem líkast til gæti orðið ofan á væri ímyndinni og þránni eftir framandleika ýtt til hliðar; blákaldur veruleikinn. En hver hefir svo sem áhuga á honum? Allir Íslendingar eru jú, listamenn og sannlega einstakir í sinni röð.

Heimildaskrá:

Bauer, Tina. 2011. Ein Jahr in Island: Reise in den Alltag. Verlag Herder, Freiburg, Basel og

Vín.

Broder, Henryk M. 2011. Mein sagenhaftes Island. Ölbaum Verlag, Augsburg.

Gehrmann, Alva. 2011. Alles ganz Isi. Isländische Lebenskunst für Anfänger und

Fortgeschrittene. Deutscher Tachenbuch Verlag, München.

Sumarliði Ísleifsson. 2002. „Fyrirmyndarsamfélagið Ísland.“ Ritið1/2002: Tímarit

Hugvísindastofnunnar:117-129.

Walter, Andrea. 2011. Wo Elfen noch helfen: Warum man Island einfach lieben muss.

Diederichs Verlag, München.

©Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, 2012

1 Blaðakonan Alva Gehrmann hélt þessu fram í blaðagrein frá árinu 2011.

2 „Die Isländer wollen immer was neues schaffen“

3 „aus den Jahren 2001 bis 2011 handeln vom Alltag in Island, der so aufregend ist wie woanders ein Abenteuerurlab.“ Þetta er hluti af kynningartextanum aftast í bókinni.

4 „Fast jeder spielt ein Instrument, und die meisten können hervorragend singen. Ein Phänomen.“

5 „In Island ist sie ein ganz normaler Mensch“

6 „Die Isländer lieben Superlative.“

7 Það skal tekið fram að það fyrirfinnast fleiri hugtök en útópía og dystópía en til hægðarauka verður ekki kafað dýpra í þann hugtakaheim.

8„Die fehlen uns die Elfen“ blaðsíða 166.